728 x 90

Líklegir afkvæmahestar á LM: Hákon frá Ragnheiðarstöðum

img
Hákon frá Ragnheiðarstöðum Mynd: aðsend

Hákon hefur lengi verið í sviðsljósinu, en snemma var stofnað ræktunarfélag um hestinn. Hefur hann vakið athygli að undanförnu fyrir afkvæmi með vaska framgöngu, jafnt alhliða sem og úrvals klárhross. Er það fremur líklegt að Hákon verði meðal þeirra hesta sem hljóta 1. verðlaun fyrir afkvæmi á næsta Landsmóti, enda með 121 í BLUP og vantar eingöngu 2 afkvæmi upp á fjölda afkvæma.


Til þess að hljóta 1. verðlaun fyrir afkvæmi verður stóðhestur að vera með 118 í BLUP og a.m.k. 15 dæmd afkvæmi.

Hákon er fæddur Helga Jóni Harðarsyni, Hannesi Sigurjónssyni og Ingu Cristinu Campos árið 2007, en þau eiga móður Hákons saman í dag og halda henni til skiptis annað hvort ár. Helgi Jón ræktar hross frá Ragnheiðarstöðum á meðan Hannes og Inga Cristina kenna hross sín við Hamarsey. 

Móðir Hákons er hin eftirminnilega Hátíð frá Úlfsstöðum, en hún hlaut 10 fyrir tölt í tvígang þegar hún var 5 vetra gömul. Var hún þá yngsta hrossið sem hlotið hafði 10 fyrir tölt. Hátíð er undan Kolfinni frá Kjarnholtum og Sörladótturinni Hörku frá Úlfsstöðum og hlaut hæst 8.38 í aðaleinkunn, þar af 10 fyrir tölt eins og áður sagði, 9.5 fyrir fegurð í reið og 9 fyrir brokk, hægt tölt og vilja og geðslag. Er Hákon fyrsta afkvæmi móður sinnar, en Hátíð hefur skilað 3 afkvæmum í kynbótadóm, sem öll eru með 1. verðlaun. 

Föður Hákons þarf vart að kynna, enda gefur liturinn það augaleið. Fyrir þá sem ekki kunna að muna það, þá er það hinn fasmikli og vinsæli Álfur frá Selfossi. Álf þekkja flestir áhugamenn um íslenska hestinn, enda lengi búinn að vera einn mest notaði og þekkti stóðhestur á Íslandi. Álfur er undan Orra frá Þúfu og Álfadís frá Selfossi.

Hákon á 145 skráð afkvæmi í Worldfeng. Meðaltal þeirra 13 afkvæma sem mætt hafa til kynbótadóms er 8.15. Af þeim 13 dæmdu afkvæmum hans hafa 5 mætt í keppni en 7 í heildina hafa prýtt keppnisbrautina enn sem komið er. Hæst dæmda afkvæmi Hákons er Hansa frá Ljósafossi en hún hlaut sinn hæsta dóm á miðsumarssýningu nú í sumar. Hlaut hún hvorki meira né minna en 8.92 fyrir hæfileika, þar af 9.5 fyrir skeið og 9 fyrir tölt, fegurð í reið og vilja og geðslag. 

Því næst koma tvær skjóttir stóðhestar, þeir Sæþór frá Stafholti og Ljósvaki frá Valstrýtu. Sæþór er getumikill alhliðahestur með 9 fyrir tölt, stökk og fegurð í reið á meðan Ljósvaki er fasmikill klárhestur með 10 bæði fyrir tölt og stökk, 9.5 fyrir fegurð í reið og vilja og geðslag og 9 fyrir fet, hægt tölt og hægt stökk. Er hann því einn hæst dæmdi klárhestur í heimi og varð hann í 5. sæti í flokki 6 vetra stóðhestar á Landsmóti 2016. 

Dæmd afkvæmi Hákons eru :

Fæðingarnúmer     Nafn     Móðir     Sköpul.    Hæfil.    Aðaleink.
IS2010288670   Hansa frá Ljósafossi   Sunna-Rós frá Úlfljótsvatni   8.28   8.92   8.66
IS2010125727   Sæþór frá Stafholti   Bending frá Kaldbak   8.43   8.63   8.55
IS2010180716   Ljósvaki frá Valstrýtu   Skylda frá Hnjúkahlíð   8.22   8.75   8.54
IS2010286837   Hylling frá Grásteini   Ljósblesa (Röst) frá Bergstöðum   8.14   8.44   8.32
IS2010282310   Sóllilja frá Hamarsey   Selma frá Sauðárkróki   8.28   8.32   8.31
IS2012287570   Aría frá Austurási   Spóla frá Syðri-Gegnishólum   8.38   8.18   8.26
IS2011287701   Gleði frá Seljatungu   Spóla frá Syðri-Gegnishólum   8.49   7.94   8.16
IS2011287802   Telma frá Blesastöðum 1A   Bára frá Brattholti   7.98   8.14   8.07
IS2010135180   Cesar frá Húsafelli 2   Litbrá frá Ármóti   7.94   8.06   8.01
IS2011288646   Hildur frá Unnarholti   Drottning frá Ytri-Reykjum   8.02   7.82   7.91
IS2011258096   Mætta frá Bæ   Brella frá Feti   8.16   7.66   7.86
IS2011281418   Hnáta frá Fákshólum   Flauta frá Hala   8.23   7.26   7.65
IS2011225426   Herðubreið frá Hofsstöðum, Garðabæ   Hekla frá Hofsstöðum, Garðabæ   7.98   7.41   7.64

--->